Töluverður sperringur hefur verið í vindinum í Skutulsfirði í morgun og verður líklega fram eftir degi. Þorsteinn Tómasson var á leið til vinnu á Ísafirði í morgun og brá honum heldur í brún þegar stærðarinnar gervihnattadiskur kom fljúgandi á móti honum, með húsfestingu og öllu saman.
„Ég náði rétt að stoppa bílinn áður en ég lenti á diskinum,“ segir Þorsteinn. „Eina ráðið sem ég hafði var að stökkva út og handsama diskinn og setja inn í bílinn til mín. Þegar ég hélt svo ferð minni áfram sá ég að lítill ruslagámur á hjólum ók eftir götunni framundan.“
Þorsteinn elti gáminn sem var á hraðri leið út í sjó og náði að stöðva hann og koma í skjól. „Ef einhver saknar þess að ná erlendum stöðvum á sjónvarpinu sínu getur sá hinn sami haft samband,“ sagði Þorsteinn.