Gagnrýna fjármálaráðherra

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, segir á heimasíðu sinni að varla sé hægt að taka alvarlega þá yfirlýsingu Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, að ekki komi til álita að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Þessi afstaða sé í andstöðu við afstöðu Árna á samráðsfundi með sveitarstjórnarfólki fyrir fáum mánuðum.

Þá segir Grímur Atlason, bæjarstjóri í Bolungarvík, í samtali við bb.is, að ummæli Árna lýsi vanþekkingu og litlum skilningi á málum sveitarfélaga og hann hafi líklega setið of lengi þeim megin við borðið þar sem hann situr.

Árni Þór segir á heimasíðu sinni, að á árlegum samráðsfundi sveitarfélaganna með fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra snemma á þessu ári hafi þau sjónarmið verið reifuð, að þeim hafi fjölgað á undanförnum árum, sem greiði lítinn sem engan tekjuskatt en hafi mestan hluta tekna sinna af fjármagni og greiða þá fjármagnstekjuskatt til ríkisins en lítið sem ekkert útsvar til sveitarfélaga. Engu að síður nýti þeir hinir sömu sér þjónustu sveitarfélaga og því sé eðlilegt að sveitarfélögin fái hlut af fjármagnstekjuskatti.

Árni Þór segir, að sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum hafi setið þennan fund. Þótt fjármálaráðherra hafi ekki lýst sig sammála þessum sjónarmiðum, þá hafi verið af og frá að hann hafnaði því eða afskrifaði, „en þá voru reyndar kosningar í aðsigi og það var etv. ástæða þess að ráðherrann vildi ekki ögra sveitarstjórnarfólki. Yfirlýsing ráðherrans nú er því í mótsögn við afstöðu hans á samráðsfundi með sveitarstjórnarfólki fyrir fáum mánuðum og varla hægt að taka hann alvarlega," segir Árni Þór.

Heimasíða Árna Þórs

bb.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert