Maður grunaður um þrjár íkveikjur í haldi lögreglu

Ungur piltur grunaður um íkveikju er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna þriggja bruna í Reykjavík í nótt. Tilkynnt var um þann fyrsta að Mörkinni 1 klukkan hálfþrjú í nótt vegna elds í vörubrettum, sem staflað hafði verið upp við vegg við verslunina Virku. Skemmdir urðu á húsinu af völdum hita og reyks og brotnuðu fimm rúður að sögn slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu.

Klukkan rúmlega þrjú í nótt var tilkynnt um eld í ruslageymslu að Gnoðavogi 40. Slökkvilið var kallað til og þurfti að reykræsta stigaganginn og fór reykur einnig inn í tvær íbúðir. Tæpri klukkustund síðar var svo tilkynnt um eld í gúmmíbáti fyrir utan hús að Gnoðavogi 26-30. Í millitíðinni hafði slökkvilið farið aftur að Mörkinni 1 að slökkva glæður. Pilturinn verður yfirheyrður í dag, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði lítur það alvarlegum augum á málið, þar sem tæpt stóð í öllum tilvikum og litlu munaði að kviknaði í húsunum sem um ræddi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert