Útflytjendur uggandi vegna hertra reglna

Eftir Hlyn Orra Stefánsson - hlynur@bladid.net
Fyrir Bandaríkjaþingi liggur nú lagafrumvarp sem felur í sér að hafnarlögum verði breytt á þá leið að skanna þurfi alla gáma sem fluttir eru til landsins, áður en þeir eru færðir um borð í skip við útflutningsland. Rökin fyrir breytingunni eru þau að Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að hryðjuverkamenn feli kjarnorkusprengjur í gámum, sem springi þegar skipin leggjast að höfn. Hjá Samskipum og Eimskipi telja menn að verði frumvarpið að lögum hafi það í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir fyrirtæki sem selja vörur sínar á Bandaríkjamarkað.

Evrópusambandið hefur hins vegar sett sig upp á móti lagafrumvarpinu. Laszlo Kovacs, yfirmaður tollamála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur lýst yfir miklum áhyggjum af þróun mála. Leggur hann til að í stað umræddra breytinga verði enn meiri þungi lagður í að áhættugreina farma, og skanna einungis þá gáma sem koma illa út úr slíkri greiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert