Góð stemning var á hagyrðingakvöldi á á hátíðinni Álfaborgarséns á Borgarfirði eystri í gærkvöldi. Á þriðja hundrað manns var á mótinu, sem mun vera rúmlega húsfyllir. Þá eru margir í bænum vegna hátíðarinnar, en mikið er um að brottfluttir Borgfirðingar vitji heimahagana þá daga sem hátíðin stendur yfir.
Þétt dagskrá er alla helgina, tröllskessur og álfar heimsóttu yngstu kynslóðina í dag og útimarkaður hófst við Fjarðarborg klukkan 14:30. Klukkan 18 verður barnaleikritið Bara í draumi, á vegum leikfélagsins frú Normu, flutt. Klukkan 20:30 munu Hvanndalsbræður trylla lýðinn, en kvöldinu lýkur á dansleik í Fjarðarborg sem hefst klukkan 23.