Nektarsýningar liðin tíð?

Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

Samkvæmt nýjum lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem tóku gildi 1. júlí sl., eru nektarsýningar bannaðar nema sérstakt leyfi sé fyrir hendi. Leyfisveitendur eru sýslumenn, nema í Reykjavík þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans. Í máli Goldfingers var leyfisveitandi því sýslumaðurinn í Kópavogi. Samkvæmt lögunum þarf leyfisveitandi að leita umsagna hjá sveitarstjórn, heilbrigðisnefnd, slökkviliði, vinnueftirliti, byggingafulltrúa og lögreglunni. Aðeins er heimilt að gefa út rekstrarleyfi með undanþágu um nektarsýningar ef allir umsagnaraðilar veita umsókninni jákvæða umsögn. Í tilfelli Goldfingers lagðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gegn því að staðurinn fengi leyfi til nektarsýninga. Sökum þessa hefur nektardansstaðurinn Goldfinger misst leyfi til nektarsýninga og er ekki útlit fyrir að staðurinn fái það á ný. Eftir því sem blaðamaður kemst næst var Goldfinger eini staðurinn sem hafði leyfi til nektarsýninga en komið var að reglubundinni endurnýjun rekstrarleyfis staðarins en gamla leyfið rann út nú um mánaðamótin.

Undanþágu hafnað á grundvelli mannúðasjónarmiða

Aðspurður segir hann ljóst að umsögnin sé almennt orðuð og lýsi almennu viðhorfi lögreglustjóra. Það þýðir, að hans sögn, að innihald umsagnarinnar eigi við um alla aðra staði sem sækja myndu um undanþágu frá lögunum og leita eftir heimild til að stunda nektardans í atvinnuskyni. Spurður hvort hér sé um stefnumörkun að ræða sagðist Jón ekki vilja tjá sig um það og vísaði einvörðungu til laganna sem bönnuðu nektarsýningar nema með undanþágu. Að sögn Jóns kveða lögin á um, að veitingastaðir skuli endurnýja leyfi innan tveggja ára frá gildistöku nýju laganna. Því hefði tæknilega getað komið upp sú staða, að skemmtistaður hefði fengið eða endurnýjað leyfi um nektarsýningar áður en nýju lögin tóku gildi og hefði sá staður þá haft leyfi til nektarsýningar fram á mitt ár 2009.

Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að reynsla undanfarinna ára af eftirliti með veitingastöðum sem boðið hafi upp á nektardans í atvinnuskyni sé miður góð. „Nokkur reynsla er af því hér á landi að starfsemi sem býður upp á nektardans byggist nær eingöngu á ungum, erlendum stúlkum sem hingað koma til starfa. Reynst hefur ómögulegt að kanna hjá þeim stöðu þeirra og aðstæður og ástæðu þess að þær stunda þessa iðju og hvort þær séu þvingaðar til þess með einum eða öðrum hætti," segir m.a. í umsögn lögreglustjórans og er á það bent, að rannsóknir erlendra yfirvalda hafi sýnt að þær stúlkur sem þátt taki í þessari starfsemi séu oft mjög ungar, hafi verið misnotaðar með ýmsu móti, til dæmis vegna fátæktar, áfengis- og/eða eiturlyfjafíknar og í mörgum tilvikum fórnarlömb mansals og/eða annarra glæpa. Jafnframt er á það bent, að eftirlits- og löggæsluþörf staða sem bjóða upp á nektardans sé almennt mjög rík.

„Vegna þessara upplýsinga og í ljósi þeirra staðreynda að oftar en ekki eru það skipulögð glæpasamtök sem útvega stúlkur til þessarar starfsemi, þykir rétt vegna ríkjandi mannúðarsjónarmiða og jafnframt almannahagsmuna og löggæslusjónarmiða að neita alfarið um leyfi til þess að heimila veitingastöðum að reka starfsemi sem býður upp á nektardans."

Ásgeir Þór Davíðsson, eigandi Goldfingers, segist afar ósáttur við umsögn lögreglustjórans og vildi, í samtali við Morgunblaðið, meina að umsögnin gæti ekki talist lögleg þar sem hún byggðist á almennum upplýsingum eða grunsemdum en ekki á staðreyndum eða kæru á hendur umsóknaraðila. „Mér líður eins og verið sé að gera mig að glæpamanni. Ég hef aldrei brotið lögin og hef alltaf verið með öll tilskilin starfsleyfi og atvinnuleyfi fyrir þessar stúlkur. Mér líkar ekki þetta lögregluríki sem hér virðist hafa myndast og er afar ósáttur við það alræðisvald sem Jón H. B. Snorrason hefur tekið sér í þessu máli," segir Ásgeir og mótmælti því einnig að staður hans hefði kallað á aukna löggæslu. Tekur hann fram að dansmeyjar hans muni áfram dansa fyrir viðskiptavini, þær muni þá bara dansa annan dans en nektardans, t.d. tangó. „Það virðist vera ólöglegt að berhátta sig á sviði samkvæmt nýju lögunum en ég get ekki séð að neitt banni stúlkunum að klæða sig í fyrir framan gestina," segir Ásgeir og bendir á að auk þess sé hægt að notast við slæður til að hylja nekt stúlknanna.

Taka svokallaðar selskapsdömur við af nektardansmeyjum?

Eftir því sem blaðamaður kemst næst eru ekki starfandi neinir staðir utan höfuðborgarsvæðisins þar sem sýndur er nektardans. Á árum áður var rekinn staðurinn Casino í Keflavík auk þess um árabil staðirnir Setrið og Venus á Akureyri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert