Rahul Monga, flugsveitarforingi í indverska flughernum, sem hefur flogið lítilli fisflugvél austurleiðina frá Indlandi til Íslands, lagði af stað frá Reykjavík áleiðis til Voga í Færeyjum í dag. Vegna slæmra veðurskilyrða í Færeyjum varð Monga hins vegar að lenda á Höfn og er þar nú. Ekki er ljóst hvenær hann kemst af stað á ný.
Upphaflega stóð til að indverski leiðangurinn héldi af stað frá Reykjavík til Færeyja í gær en varð þá að fresta för vegna úrkomu þar.
Ferðin er farin á vegum flughersins með það að markmiði að setja heimsmet í fisflugi umhverfis hnöttinn, en núgildandi met er 99 dagar. Vélin tekur 135 lítra af eldsneyti en hefur mikið flugþol því hún vegur minna en 450 kíló. Leiðangurinn er þegar orðinn 16 dögum á eftir áætlun og hefur staðið yfir í 65 daga.