Ofangreint kemur fram í umsögn Þórodds F. Þóroddssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Skipulagsstofnunar, vegna framkvæmda við Fjarðarárvirkjun í Seyðisfirði.
Segir í umsögninni að dæmið sýni mikilvægi þess að leyfisveitendur, ásamt umsagnaraðilum, skoði með framkvæmdaraðila á vettvangi hvernig hann hyggst standa að verki svo hægt sé að meta hversu raunhæf fyrirhuguð verktilhögun er. Þá segir þar einnig að koma þurfi eftirliti með öryggisþáttum í hendur óháðs fagaðila og tryggja þurfi að framkvæmdin uppfylli hönnunar- og öryggisstaðla. Þá þurfi að krefjast frekari upplýsinga um hönnun mannvirkja svo umhverfisáhrif verði augljósari en slíkt komi ekki nógu skýrt fram í tilkynningu vegna matsskyldu.