40 ökumenn kærðir fyrir umferðarlagabrot í Skagafirði

Lögreglan á Sauðárkróki hefur frá því á föstudag kært um 40 ökumenn fyrir of hraðan akstur og önnur umferðarlagabrot svo sem fyrir að tala í farsíma á ferð og að vera ekki með bílbeltin spennt. Mega þessir ökumenn eiga von á að þurfa að borga sekt allt frá 5000 krónum til 70.000 króna auk þess að fá punkta í ökuferilsskrá.

Lögreglan segir, að sá sem hraðast ók var á 125 km hraða á klst. Allmargir ökumenn hafa verið stöðvaðir og kannað með ástand þeirra til aksturs með tilliti til áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu og segir lögregla að í öllum tilfellum hafi reynst í lagi með þá.

Nokkur fíkniefnamál hafa komið upp það sem af er helginni og hefur verið lagt hald á nokkurt magn fíkniefna í tengslum við þau. Um 100 skammtar af LSD fundust á farþega í fólksflutningabíl sem áði í Varmahlíð en tveir voru handteknir í tengslum við rannsókn þess. Lögreglan á Sauðárkróki naut aðstoðar lögreglumanna frá Akureyri í því máli og einnig fíkniefnaleitarhunds og lögreglumanns frá Eskifirði sem var við störf á Sauðárkróki.

Einnig fann sami fíkniefnaleitarhundur amfetamín sem falið hafði verið í bifreið sem stöðvuð var á Þverárfjallsvegi að morgni föstudags. Þrír voru handteknir í tengslum við rannsókn þess máls. Í þessum málum var viðkomandi sleppt að lokinni skýrslutöku og teljast málin upplýst.

Nokkur smávægileg umferðaróhöpp hafa orðið á tímabilinu. Ekið hefur verið á fé á Öxnadalsheiði en heiðin er afréttur og ekki girt með þjóðveginum og því talsvert um að fé leiti í beit á vegaröxlunum.

Ungur drengur var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki á laugardagskvöld eftir að hann velti fjórhjóli og lenti undir hjólinu. Pilturinn var réttindalaus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert