Banaslys varð á Laugarvatnsvegi á móts við bæinn Þóroddsstaði laust eftir klukkan 7 í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi lést ökumaður fólksbíls þar þegar hann missti stjórn á bílnum í beygju. Virðist bíllinn hafa farið nokkrar veltur og ökumaðurinn kastast út úr henni. Lögreglumenn komu á slysstað rétt á eftir. Þeir höfðu áður reynt að stöðva bílinn á Biskupstungnabraut en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkum.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi kemur fram, að maðurinn, sem var á þrítugsaldri, var ekki með meðvitund þegar lögreglumenn komu á slysstaðinn og lífgunartilraunir báru ekki árangur. Maðurinn var einn í bílnum.
Lögreglumenn á leið að Selfossi höfðu mætt bílnum á Biskupstungnabraut á milli Seyðishóla og Minni Borgar og hugðust hafa afskipti af ökumanni. Þeir gáfu honum merki um að stöðva með því að kveikja blá forgangsljós. Þegar lögreglumennirnir voru að snúa við sáu þeir að hraði bílsins var aukinn. Lögreglumennirnir fylgdu á eftir en misstu sjónar af bílnum rétt ofan við verslunina Minni Borg. Þá voru forgangsljós slökkt en lögreglumenn héldu áfram ferð sinni til að svipast um eftir bílnum.
Þeir töldu sig síðan hafa séð bílinn við Svínavatn með stefnu upp Laugavatnsveg. Það sem lögreglumennirnir sáu næst var ryk- og gufumökkur á veginum á móts við Þóroddsstaði og þegar þeir komu að staðnum sáu þeir hvað gerst hafði.
Lögreglan segir að ekki verði að svo komnu hægt að upplýsa frekar um þetta slys þar sem rannsókn sé í gangi og óljóst hvenær henni ljúki.