Sextán ára gömul stúlka og tæplega þrítugur unnusti hennar voru handtekin á Keflavíkurflugvelli þegar þau reyndu að smygla um hálfu kíló af kókaíni til landsins og hafa verið í haldi í viku. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins. Parið var með efnin innvortis og er andvirði þeirra talið vera nærri 30 miljónum króna.
Í sjónvarpsfréttunum sagði, að fólkið hafi verið að koma frá Venesúela. Maðurinn sé sá sami og myndatökumaður Sjónvarpsins náði fyrir tilviljun á mynd við handrukkun í nágrenni lögreglustöðvarinnar við Hlemm í lok apríl.
Fólkið hefur setið í einangrun frá því það var handtekið og hafa skýrslur verið teknar af því. Það hefur játað sök. Haft verður samráð við ríkissaksóknara um framhald málsins.