Mælingar á fjölda svifþörunga í sjósýnum úr Eyjafirði benda til hættu á þörungaeitrun í kræklingi og öðrum skelfiski þar og er fólk því varað við neyslu skelfisks úr firðinum, sem stendur. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu en stofnunin tekur vikulega sýni úr skelfiski í Eyjafirði og Breiðafirði í forvarnarskyni og Umhverfisstofnun tekur sýni í Hvalfirði. Hafrannsóknastofnun sér um að rannsaka sýnin sem tekin eru.
Tvær tegundir eiturþörunga eru yfir viðmiðunarmörkum í Eyjafirði og segir Fiskistofa, að því sé talin veruleg hætta á að kræklingur og annar skelfiskur þar sé óhæfur til neyslu. Þessir eiturþörungar geta annars vegar valdið lömunareitrun eða og hins vegar niðurgangseitrun.
Niðurstöðurnar úr rannsóknunum eru birtar vikulega á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar og eru þeir sem ætla sér að neyta skelfisks af þessum svæðum hvattir til þess að fylgjast með ástandinu og gæta varúðar.