Fjöldi fæðinga á kvennasviði Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið svipaður í sumar og undanfarin ár, að sögn Margrétar Hallgrímsson sviðsstjóra. Að jafnaði hafa fæðst 8–9 börn á sólarhring og hafa þar fæðst tæplega 1.800 börn það sem af er árinu.
Hreiðrið, sem er deild fyrir eðlilegar fæðingar, var opnað í september í fyrra. Þangað koma konur sem vilja fæða án þess að mikið inngrip sé í fæðinguna. Margrét sagði að fæðingar í Hreiðrinu væru nú um 40 á mánuði. Það hefur létt á og sagði Margrét að álagið á kvennasviði hefði verið mjög jafnt í sumar og ekki óeðlilega mikil vandamál vegna mönnunar. Hún sagði þetta hafa gengið vel með góðu samstarfi allra aðila, þótt vissulega hefðu komið álagstoppar. Við það verði aldrei ráðið.