Hart barist í drullunni á mýrarboltamóti

Það var hart barist um helgina.
Það var hart barist um helgina. mynd/bb.is

Trifan Ivanov og Gleðisveit Gaulverjahrepps eru Evrópumeistarar í mýrarbolta eftir mót sem haldið var í Tungudal á Ísafirði um helgina.

Trifan Ivanov, sem nefnt er í höfuðið á búlgörskum varnarjaxli sigraði Englana, meistara fyrra árs, í spennandi úrslitaleik þar sem grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Þess þurfti einnig í úrslitaleik kvennaflokks þar sem Gleðisveit Gaulverjahrepps bar sigurorð af Gleðikonum.

„Það var nokkuð mikið um vítaspyrnukeppnir í úrslitunum þar sem menn tóku ekki mikla sénsa og drullan var blautari en nokkru sinni áður og því erfiðara að skora“, segir Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, drullusokkur mótsins. „Við vorum óheppin með veður á laugardegi, þá var frekar hryssingslegt og kalt. Á móti vorum við heppin með veður á sunnudag sem var eins gott því tjaldið okkar hafði fokið um nóttina.“

Hátt í 300 þátttakendur spiluðu á mótinu og mikill fjöldi fólks lagði leið sína inn í Tungudal til að fylgjast með herlegheitunum. „Fjöldinn var svo mikill á laugardegi að það myndaðist umferðarhnútur sem tók tíma að greiða úr. Það var gaman að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta og fylgjast með.“

Ekki var mikið um meiðsl á mótinu frekar en áður. Þó meiddist einn maður á hné snemma móts og þurfti að hætta keppni.

Keppt var í nýrri grein á mótinu, svokallaðri drulluteygju þar sem markmiðið er að komast sem lengst í drullunni með teygju bundna um sig miðjan. Vakti greinin mikla athygli og skemmtan áhorfenda. Sigurdís Samúelsdóttir fór lengst kvenna, en Þórarinn Ólafsson komst lengst karla.

Að kvöldi sunnudags var haldið lokahóf í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar fengu Ofurkonur hin eftirsóttu búningaverðlaun, Sigþór Snorrason þótti hafa skorað fallegasta markið, Ómar Helgason var valinn stuðningsmaður ársins, Magnús Sigurðarson þótti drullugasti leikmaðurinn, Rækjurnar fengu titilinn prúðasta liðið, FC Kareoki var valið skemmtilegasta liðið og Eygló Jónsdóttir þótti skemmtilegasti leikmaðurinn.

Frá verðlaunaafhendingu í mýrarboltakeppninni.
Frá verðlaunaafhendingu í mýrarboltakeppninni. mbl.is/Þorsteinn J. Tómasson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert