Landspítali verður reyklaust sjúkrahús frá næstu áramótum þegar skrefið verður stigið til fulls og síðasta reykherberginu lokað. Ekki verður lengur leyft að reykja á sjúkrahúsinu eða í næsta nágrenni þess en nokkur reykherbergi hafa verið opin fyrir sjúklinga.
Í tilkynningu frá Landspítala háskólasjúkrahúsi segir, að reykherbergin hafi valdið öðrum sjúklingum og starfsfólki ónæði og oft verið kvartað vegna þeirra. Vegna þessa og af heilbrigðisástæðum verði reykherbergjunum lokað, fyrst í aðalbyggingum við Hringbraut og í Fossvogi 15. ágúst n.k. og síðan á geðsviði, Landakoti og á Grensási 1. janúar 2008.
Starfshópur á vegum forstjóra LSH, sem í sitja fulltrúar frá læknaráði, hjúkrunarráði, starfsmannaráði, siðanefnd og skrifstofu starfsmannamála, hefur unnið að stefnu um reykleysi sjúkrahússins og lagt fram leiðbeiningar fyrir starfsfólk sem sinnir sjúklingum. Höfð er að leiðarljósi bætt líðan og betri heilsa sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Lögð verður áhersla á að sjúklingar á LSH sem reykja fái fræðslu og ráðgjöf frá læknum og hjúkrunarfræðingum og stuðning við að takast á við reykleysi meðan þeir dvelja á sjúkrahúsinu. Sjúklingum verður meðal annars gerð grein fyrir því hvað þeir geti gert til að draga úr vanlíðan vegna reyklöngunar og hvaða lyfjameðferð gegn reykingum stendur til boða meðan dvalið er á Landspítala.