Þrjú ungmenni slösuðust í fjórhjólaslysi

Fjórhjólaslys varð norður á Ströndum um miðjan dag á sunnudag þegar þrjú ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára fengu að leika sér á óskráðu og ótryggðu fjórhjóli. Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum voru ungmennin öll hlífðarhjálmalaus.

Ekki vildi betur til en að ökumaðurinn, sem er 16 ára og réttindalaus, missti stjórn á hjólinu, ók út fyrir veginn og steyptist hjólið ofan í ána. Fallið var um 6 til 8 metrar.

Ungmennin köstuðust af hjólinu áður en það steyptist í ána. Ökumaðurinn slasaðist talsvert og var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík, en farþegarnir voru fluttir á sjúkrahúsið á Hólmavík þar sem gert var að smámeiðslum sem þau hlutu.

Lögreglan segir of algengt, að fullorðnir forráðamenn slíkra farartækja, fjór- og sexhjóla, leyfa réttindalausum ungmennum að aka þegar komið er upp í sveit en slíkt sé jafn mikið lögbrot og hættulegt og ef ekið væri á götum Reykjavíkur. Vill lögreglan hvetja eigendur slíkra farartækja að hafa þetta í huga áður en réttindalausum ungmennum er leyft að leika sér í sveitinni á torfærutækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert