Heimsóknum á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, hefur fjölgað að undanförnu samkvæmt nýjum niðurstöðum samfelldrar dagblaða- og netmiðlamælingar Capacent Gallup fyrir maí-júlí.
Í könnuninni kemur fram að 50,7% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára heimsóttu mbl.is daglega en þetta hlutfall var 49,6% í síðustu könnun. 24,4% heimsóttu netmiðilinn visir.is en 21,7% í síðustu könnun.
Þá kemur fram í könnuninni að 71,6% heimsóttu mbl.is einhvern tímann á könnunartímabilinu en 46,8% vísir.is. Þessi hlutföll voru 70,5% og 43,8% i síðustu könnun. Þá heimsóttu 27,2% vefinn blogcentral.is á tímabilinu.
Lestur Morgunblaðsins eykst
Capacent kannaði einnig lestur dagblaða á umræddu tímabili og leiðir sú könnun í ljós að lestur Morgunblaðsins hefur aukist, er nú 44,4% en var 43% í mars og apríl. Lestur Fréttablaðsins hefur minnkað um 2,2 prósentur og mælist nú 63%. Lestur Blaðsins dregst saman um 2 prósentur og mælist 36,2% og lestur DV eykst um 1,9 prósentur og mælist nú 7%.