„Þetta er eitt af þremur stórum verkefnum sem við erum með núna, hin eru í Kína og Bandaríkjunum. Verkefnin í Þýskalandi og Bandaríkjunum eru svipað stór en verkefnið í Kína er aðeins minna," segir Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri Enex, en hann segir það verkefni sem hleypt var af stokkunum í Þýskalandi í gær engu að síður vera mjög mikilvægt.
„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir Enex. Hér í Þýskalandi sé ég möguleika á fimm, tíu og jafnvel fleiri verkefnum af þessari stærðargráðu. Við erum að tala um fjárfestingar fyrir tugi milljarða króna," segir Lárus.
Hann segir næsta skref Enex verða formlega opnun á skrifstofu í Bandaríkjunum í september. „Þar munum við byrja að bora með haustinu eins og hér. Þannig að það er rífandi gangur í þessu," segir Lárus en hann segir Enex einnig vera að kanna möguleika víðs vegar um Evrópu, meðal annars í Slóvakíu og í Ungverjalandi.
Nánar er fjallað um þetta í Blaðinu í dag.