Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hélt opinn hátíðarfund í dag í tilefni af 20 ára afmæli bæjarins Á fundinum var ákveðið að gera Salome Þorkelsdóttur, fyrrverandi alþingismann, að heiðursborgara. Þá var ákveðið að reisa útivistar- og ævintýragarð ði Mosfellsbæ.
Fréttatilkynning frá Mosfellsbæ
„Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hélt opinn hátíðarfund í dag í tilefni af 20 ára afmæli bæjarins en hann fékk kaupstaðarréttindi hinn 9. ágúst árið 1987. Á fundinum var ákveðið að gera Salome Þorkelsdóttur, fyrrverandi alþingismann, að heiðursborgara. Einnig var ákveðið að gera gangskör að því að reisa útivistar- og ævintýragarð í Mosfellsbæ. Áformað er að hann rísi á svæði sem nefnt er Hvammar og er á milli Varmár og Köldukvíslar. Bæjarstjórn ákvað enn fremur á fundi sínum að láta gera útilistaverk í tilefni tímamótanna. Þá var samþykkt að stofna barna- og unglingaráð Mosfellsbæjar. Gert er ráð fyrir að það vinni með öllum sviðum stjórnsýslu bæjarins og má því til að mynda ætla að það komi að undirbúningi útivistar- og ævintýragarðsins.
Hátíðarfundur bæjarstjórnar var haldinn í Bókasafni og Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna en þar er miðstöð þjónustu og stjórnsýslu bæjarins. Þar fór einnig fram fjölbreytt dagskrá sem var vel sótt af bæjarbúum. Í Listasal var opnuð skemmtileg sýning á ljósmyndum af bæjarlífinu úr fórum bæjarblaðsins Mosfellings, djasstríó lék ljúfa tóna og flutt var verkið „...og fjöllin urðu kyr“ sem gert var í tilefni afmælisins.
Afmæli Mosfellsbæjar markar að þessu sinni upphaf bæjarhátíðar Mosfellsbæjar Í túninu heima en hápunktur hennar er 23.-26. ágúst. Þá verður boðið upp á margs konar tónleika, reiðsýningu, flugsýningu, útimarkaði, ferðasafn stærðfræðisafnsins Mathematikum frá Þýskalandi og margt fleira. Einnig verður bærinn skreyttur í fjórum litum eftir hverfum, sýningarhöll verður opin laugardag og sunnudag þar sem fyrirtæki, klúbbar, félagasamtök og einstaklingar kynna starfsemi sína, Leikfélag Mosfellsbæjar verður með sýningu og sérstök hátíðardagskrá verður föstudaginn 24. ágúst.“