Flugvélin sem hlekktist á í flugtaki í Nýjadal á Sprengisandsleið í fyrrakvöld er enn í Nýjadal. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er ekki enn ljóst hvort reynt verður að gera við flugvélina á staðnum eða hún flutt til byggða til viðgerðar.
Flugvélin er skráð í Bandaríkjunum og flugu henni tveir breskir flugmenn. Með þeim í vélinni voru tveir ástralskir farþegar. Það vakti athygli að auðkennismerki flugvélarinnar voru hulin með málningu eftir óhappið. Að sögn lögreglunnar var gefin sú skýring að mennirnir hefðu hulið skráningarmerkin til að koma í veg fyrir að þau sæjust á myndum á Netinu.
Flugvélinni var lent á flugvellinum í Nýjadal og síðan ekið eftir veginum að skálanum. Þegar fara átti á loft ákváðu flugmennirnir að fara bara beint af augum, langt utan flugbrautarinnar. Þar var jarðvegurinn gljúpur og fór flugvélin yfir tvö drög í flugtaksbruninu. Þar skall vélin niður og skemmdist hjólabúnaðurinn töluvert og skrúfan einnig.