Innleiðing svonefnds frístundakorts í Reykjavík hefst þann 1. september næstkomandi. Öll börn á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í Reykjavík eða tæplega 20.000 börn eiga rétt á styrk til þátttöku í íþrótta-, lista- og æskulýðsstarfsemi við innleiðingu kortsins.
Meginmarkmið Frístundakortsins er að veita öllum reykvískum ungmennum á aldrinum 6-18 ára tækifæri til að taka þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
Með Frístundakortinu má greiða að hluta eða að öllu leyti fyrir íþrótta-, lista- og æskulýðsstarfsemi á vegum félaga og samtaka sem starfa í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Frístundakortið stuðlar að jöfnuði í samfélaginu og fjölbreytileika í tómstundastarfi.