Ástarvikan í Bolungarvík hefst á sunnudag fjórða árið í röð en markmið hennar er að fjölga Bolvíkingum. Hátíðin er orðin landsfræg og dagskrá hennar verður vegleg þetta árið rétt eins og áður. Meðal þess sem verður í boði er faðmlaganámskeið, listsýning leikskólabarna, ævintýraskútusigling, tónleikahald og flutningur ástarljóða vestfirskra skálda.
Hápunktur hátíðarinnar er Heilsueflingarhláturhátíðarkvöld sem haldið verður í Víkurbæ laugardaginn 18. ágúst þar sem dúettinn Dúo Jazz Bonnie and Clyde hefja leikinn en síðan mun gamanleikkonan góðkunna Edda Björgvinsdóttir stíga á svið og fara með uppistand um ástina. Það fjallar um eiturefnaúrgangsskrímsli sem eyðileggur allt ástarlíf. Edda mun gera grín að sjálfri sér auk þess sem hún gefur góð ráð til að rotna ekki innan frá og halda kynorkunni fram í rauðan dauðann.
Þá verða fjöldaástarlög sungin og í tilkynningu er lofað frábærri stemmningu inn í nóttina. Framkvæmdastjóri Ástarvikunnar í ár er Birna Hjaltalín Pálmadóttir.