Flugvélar komnar til landsins vegna varnaræfingar

AWACS ratsjárflugvél, sem taka mun þátt í varnaræfingu í næstu …
AWACS ratsjárflugvél, sem taka mun þátt í varnaræfingu í næstu viku.

Fyrstu erlendu þátttakendurnir í varnaræfingunni Norðurvíkingi 2007 komu til landsins í dag með E-3A AWACS ratsjárflugvél Atlantshafsbandalagsins og P-3C Orion eftirlitsflugvél norska flughersins.

Samkvæmt upplýsingum frá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli taka flugvélar af þessum gerðum þátt í loftvarnarþætti æfingarinnar, sem hefst á þriðjudag ásamt bandarískum F-15 og norskum F-16 orrustuflugvélum og tveimur KC-135 eldsneytisbirgðaflugvélum sem koma til Keflavikur á mánudag.

Um 170 hermenn frá fjórum löndum munu gista í íbúðum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli á meðan æfingin stendur í næstu viku en 50-60 manna áhöfn á danska varðskipinu Triton tekur einnig þátt í æfingunni auk rúmlega 20 íslenskra sérsveitarmanna og 20 manna frá Landhelgisgæslunni. Rúmlega 100 starfsmenna utanríkisráðuneytisins, flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli, Ratsjárstofnunar auk annarra hafa undirbúið æfinguna og taka þátt í henni á einn eða annan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert