Vél 2 í Kárahnjúkavirkjun var í gær prófuð með því að hleypa á hana grunnvatni, sem safnast hefur fyrir í neðsta hluta aðrennslisganga virkjunarinnar. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að allt hafi gengið að óskum og vélin hafi verið keyrð í um klukkustund á vatni.
Þorsteinn sagði, að nú gætu menn farið að vinna sér inn tíma með því að klára að prófa vélarnar með vatni áður en vatn fer að renna úr Hálslóni.
„Það er mikil handavinna eftir í göngunum en menn vona, að hægt verði að ljúka frágangi í október og þá verði hægt að hefja raforkuframleiðslu fyrir alvöru," sagði Þorsteinn. Hann sagði að framleiðslan verði keyrð upp hraðar en áður var áætlað til að vinna upp tíma vegna tafa, sem orðið hafa á Kárahnjúkavirkjun.
Þorsteinn sagði, að fram hefði komið á stjórnarfundi Landsvirkjunar í dag að ekki væri útlit fyrir annað en fjárhagsáætlanir vegna virkjunarinnar myndu standast.