Ríflega 10.000 gestir eru mættir á Fiskidaginn mikla á Dalvík. Framkvæmdastjóri dagsins segir ótrúlegt mannhaf fólks vera í bænum og allt ganga vel.
Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri dagsins, segir stemmninguna á götum Dalvíkur vera ólýsanlega.
„Ég spurði lögregluna að því áðan hvernig staðan væri og hún sagði fólk bara vera dásamlegt.“
Fiskidagurinn mikli er haldinn í sjöunda sinn þessa helgi. Bæjarbúar þjófstarta í kvöld og taka veglega á móti 10.000 gestum, en búist er við enn fleiri gestum á morgun á hinn eiginlega Fiskidag.
Í kvöld tekur menntamálaráðherra fyrstu skóflustungu að nýju menningarhúsi bæjarins og þar á eftir munu gestir mynda vináttukeðju neðan við Dalvíkurkirkju og hlýða á framsögur Karl Sigurbjörnssonar, biskups, og Vigdísar Finnbogadóttur um vináttuna. Í kvöld bjóða svo íbúar um 70 heimila á Dalvík gestum og gangandi heim í fiskisúpu.