Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann í 45 daga fangelsi fyrir þjófnaðartilraun og umferðarlagabrot. Brotin framdi hann í byrjun júlí, þremur dögum eftir að honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi sem hann sætti í hálft ár vegna síbrota en hann var þá jafnframt úrskurðaður í gæsluvarðhald að nýju.
Maðurinn var um miðjan júlí dæmdur í 30 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg brot m.a. á almennum hegningarlögum og mörg brotin framin í félagi við aðra. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Dómurinn nú er hegningarauki við þann dóm.