Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Og fjarskiptum ehf. sé heimilt að krefja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu vegna reikninga sem eru tilkomnir vegna beiðna um hlerun, sem berast félaginu utan skrifstofutíma og eru vegna greiðslu á bakvaktarútkalli til tæknimanns.
Lögreglan kvartaði við stofnunina í lok síðasta árs vegna tveggja reikninga, sem símafélagið Vodafone sendi fyrir hlerun á samtals þremur símanúmerum.
Í kvörtuninni var gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd símhlerunar sé háttað þegar um er að ræða símanúmer viðskiptavina Og fjarskipta ehf. Þar kom m.a. fram að það falli í hlut Símans að annast framkvæmd hlerana í slíkum tilvikum. Því taldi lögreglan að Og fjarskiptum væri ekki heimilt að krefjast gjalds fyrir umrædda þjónustu.
Fram kom í athugasemdum Og fjarskipta, að reikningarnir væru vegna greiðslu á bakvaktarútkalli til tæknimanns. Taldi Póst- og fjarskiptastofnun að ekki væri að finna nein ákvæði í fjarskiptalögum sem kæmu í veg fyrir að Og fjarskiptum væri heimilt að krefjast endurgjalds fyrir veitta þjónustu í tengslum við beiðnir um hlerun, sem bærust utan skrifstofutíma og væru vegna greiðslu á bakvaktarútkalli til tæknimanns.