Stór grjóthnullungur, sennilega 4-5 tonn á þyngd, féll í nótt á veginn undir Óshlíð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur rétt innan við Seljadal. Guðmundur Páll Jónsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði, segir að auk steinsins stóra hafi tveir aðrir minni fallið úr hlíðinni. Talsverðar skemmdir urðu á veginum og vegriðum en veðurstöðvarmastur í dalnum slapp. Búið er að hreinsa veginn.
„Þetta gerist alltaf öðru hvoru og er algert lán að ekki skuli hafa hlotist slys af," sagði Guðmundur Páll.
Hann sagði að rignt hefði töluvert undanfarna tvo daga en þá eykst hættan á skriðufalli úr hlíðinni.
Íslensk stjórnvöld vonast til að hægt verði að byrja á gerð Óshlíðarganga í upphafi næsta árs, en fimm verktakar og verktakahópar þátt í forvali vegna jarðgangagerðarinnar. Reiknað er með að framkvæmdirnar taki að minnsta kosti tvö ár og þau verði tilbúin öðru hvoru megin við áramótin 2009/2010.