Eftir Eyþór Árnason í Hollandi
Bergþór Eggertsson á Lótus van Aldenghoor var rétt í þessu að tryggja sér gullið í 250 metra skeiði hér á HM í Hollandi. Í gær voru farnir tveir fyrstu sprettirnir og náði þá Bergþór bestum tíma og fór brautina á 21,55 sekúndum. Áðan voru svo farnir seinni tveir sprettirnir en enginn náði að bæta um betur og því vann Bergþór á tímanum sem hann fékk í gær. Tíminn sem hann fór á er trúlega Íslandsmet en það á eftir að staðfesta það. Um 6 þúsund manns horfðu á skeiðið.
Þetta er annað gullið sem Íslendingar fá á mótinu en fyrir hafði Sigursteinn Sumarliðason fengið gull í gæðingaskeiði.
B-úrslitin í tölti og slaktaumatölti kláruðust einnig í dag. Hin unga og efnilega Helena Aðalsteinsdóttir, sem keppir fyrir Noreg, náði að vinna sig inn í A-úrslitin í tölti. Í slakataumatölti tryggði Eva-Karin Bengtsson frá Svíþjóð sér sæti A-úrslitum.
Úrslit í 250 metra skeiði:
- Bergþór Eggertsson - Lótus van Aldenghoor 21,55 sekúndur
- Sigursteinn Sumarliðason - Kolbeinn frá Þóroddsstöðum 21,66
- Emelie Romland Svíþjóð - Mjölnir frá Dalbæ 21,77
- Guðmundur Einarsson Svíþjóð - Sproti frá Sjávarborg 22,04
- Magnus Lindqvist Svíþjóð - Thor från Kalvsvik 22,16
- Nicole Mertz Þýskalandi - Óðinn von Moorflur 22,19
- Sigurður Marinusson Hollandi - Eilimi vom Lindenhof 22,23
- Jens Füchtenschnieder Þýskalandi - Keimur frá Votmúla 1 22,33
- Nicole Kempf Þýskalandi - Bylta vom Auehof 22,48
- Höskuldur Aðalsteinsson Austurríki - Ketill frá Glæsibæ II 23,11
B-úrslit í tölti
Helena Aðalsteinsdóttir Noregi - Seth fra Nøddegården 2, 7,61
Chatrine Brusgaard Danmörku - Jón frá Hala 7,56
Ditte Søeborg Danmörku - Dár frá Kjartansstöðum 7,17
Unn Kroghen Aðalsteinsson Noregi - Þeyr frá Akranesi 6,89
Bernhard Podlech Þýskalandi - Fenna vom Wiesenhof 6,50
B-úrslit í slakataumatölti
Eva-Karin Bengtsson Svíþjóð - Kyndill frá Hellulandi 7,50
Yoni Blom Hollandi - Týrson vom Saringhof 7,38
Jaap Groven Hollandi - Gimsteinn frá Skáney 7,04
Petra Tropper Austurríki - Sjarmi frá Skriðuklaustri 6,63.
Mynd úr tímatökuvélinni sýnir Bergþór og Lótus van Aldenghoor koma í mark, væntanlega á nýju Íslandsmeti.
Mikill fjöldi áhorfenda er á keppnissvæðinu í Hollandi.
mbl.is/Eyþór