Íbúar á Kársnesi í vesturbæ Kópavogs hafa undanfarið mótmælt skipulagstillögum Kópavogsbæjar fyrir nesið. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að verið sé að taka gamalt og þreytt iðnaðarsvæði og breyta því í fallegt íbúðarsvæði og ekki sé verið að storka innviðum samfélagsins með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á næstu 4-8 árum. Hann segist jafnframt vilja vinna að skipulagsmálum í sátt við íbúa.
Arna Harðardóttir, formaður Betri byggðar á Kársnesi, segir að um sé að ræða stóraukningu á atvinnustarfsemi, stækka eigi höfnina og þrefalda atvinnuhúsnæði og jafnframt að tvöfalda íbúafjöldann. Þessar hugmyndir gangi ekki upp og hverfið þoli þetta ekki.
Í rammaskipulagi sem kynnt var í desember var gert ráð fyrir landfyllingu sem er tæpir 5 hektarar, til viðbótar við eldri landfyllingar. Þá var fyrirhugað að byggja 845 íbúðir og stækka höfn og atvinnusvæði við höfnina.
Öllu skipulagssvæðinu var deilt niður í 10 reiti, sem verða deiliskipulagðir hver í sínu lagi. Þegar hafa tveir reitir verið afgreiddir, annar á bæjarstjórnarfundi sem kallaður var saman með litlum fyrirvara á fimmtudaginn. Skipulag atvinnu- og hafnarsvæðisins er nú í auglýsingu og hafa íbúar frest til 21. ágúst til að skila athugasemdum um það. Tekin verður ákvörðun um þetta þegar frestur til athugasemda rennur út.
Þetta mál verður tekið til nánari skoðunar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.