Gengu í skrokk á manni á Dalvík

Lögreglan á Akureyri hefur nú til rannsóknar líkamsárás sem átti sér stað á fjórða tímanum í nótt á Dalvík. Að sögn lögreglu réðust tveir menn á þann þriðja úti á götu og veittu honum áverka í andliti. Einn maður gisti fangageymslur í nótt vegna árásarinnar og þá yfirheyrði lögreglan annan mann vegna málsins í dag.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni þurfti að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna þeirra áverka sem hann hlaut, en hann er hinsvegar óbrotinn segir lögregla.

Lögreglan segir málið í rannsókn og ekki liggi fyrir hvers vegna mennirnir tveir réðust á þann þriðja. Árásamennirnir, sem eru liðlega tvítugir, voru undir áhrifum áfengis þegar þeir gengu í skrokk á manninum.

Lögreglan segir hátíðarhöld í tengslum við Fiskidaginn mikla hafa gengið vel að mestu, en þar hafa tugir þúsunda lagt leið sína til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert