Greiða sjálfir hótelgistingu við læknisheimsókn

Alexander Gíslason og Penchos Penchev.
Alexander Gíslason og Penchos Penchev.
Eftir Hlyn Orra Stefánsson - hlynur@bladid.net
„Við búum á Akureyri, en þurfum á læknisþjónustu sérfræðinga Landspítala-háskólasjúkrahúss að halda a.m.k. 4 sinnum á ári hvor. Þá þurfum við oftar en ekki að gista á hótelum, þar sem ekkert pláss fæst á hótelspítala LSH," segir Alexander Gíslason, en hann og Penchos Penchev, félagi hans frá Búlgaríu, greindust HIV-smitaðir fyrir nokkrum árum.

LSH er með samning við Fosshótel um pláss fyrir sjúklinga sem þurfa á gistirými að halda eftir að hafa leitað sér læknishjálpar. Yfir vetrartímann býður spítalinn upp á pláss fyrir 50 sjúklinga, en aðeins fyrir 30 á sumrin. „Þá fara túristarnir inn, en sjúklingarnir eiga greinilega bara að fara í frí," segir Alexander.

Panta þarf pláss með löngum fyrirvara á sjúkrahótelinu, sem kemur sér illa fyrir þá Alexander og Penchos, þar sem þeir þurfa oft að leita til sérfræðinganna með stuttum fyrirvara. Þeir segjast því yfirleitt reyna að fara norður strax að lokinni læknisheimsókn, en oft komist þeir ekki hjá því að eyða nótt í Reykjavík á eftir.

Okkur er yfirleitt sagt að gista bara hjá vinum og ættingjum. En við getum ekki beðið vini og ættingja um gistingu margoft á ári. Þá er eini kosturinn í stöðunni að fá inni á hóteli, sem getur kostað 7 til 10 þúsund krónur fyrir nóttina," segir Alexander.

Nánar er rætt við Alexander í Blaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert