Ellefu af fjórtán slökkviliðsmönnum Egilsstaða hafa sagt upp starfi sínu og hætta frá og með 1. september næstkomandi vegna kjaradeilu við nýtt brunasamlag.
Jón Guðmundur Guðmundsson, slökkviliðsmaður á Egilsstöðum, sagði í samtali við Morgunblaðið að fólk gæti rétt ímyndað sér hvaða áhrif uppsagnirnar hefðu því að slökkviliðið á Egilstöðum væri eitt annasamasta slökkvilið á landsbyggðinni. Hann benti á að flugmálastjórn er inni í brunasamlaginu.
„Flugvöllurinn á Egilsstöðum er þess vegna inni í þessu og talsvert af millilandaflugi fer þar í gegn, aðallega vegna álversins og virkjanaframkvæmda, þannig að uppsagnirnar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi flugvallarins.“
Að sögn Jóns hefur stjórn brunasamlagsins ekki brugðist við uppsögnum slökkviliðsmannanna sem eru allir í hlutastarfi. „Eftir að við lögðum fram uppsagnirnar 1. júlí þá hafa einfaldlega ekki fengist nein svör.“
Jón sagði að brunasamlagið hefði breytt launakerfinu frá grunni og greiðslur fyrir bakvaktir slökkviliðsmannanna hefðu hækkað um 4%. Útborguð laun fyrir útköll hefðu hins vegar lækkað verulega, miðað við fyrra kerfi.
„Ef við mætum á eina æfingu og fáum eitt útkall í mánuði er lækkunin á útborguðum launum 17%, ef útköllin eru tvö er lækkunin 25% en við þrjú útköll fáum við 31% minna í vasann en áður.“