Svört skýrsla um Grímseyjarferjuna

Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net
Ný Grímseyjarferja sem enn liggur í flotkví í Hafnarfirði er „í einu orði sagt hrörleg sökum vanhirðu og skorts á viðhaldi. Þessu til viðbótar virðist sem að ekki hafi verið staðið nægilega vel að eða vandað til smíði skipsins."

Þetta er meðal þess sem lesa má í skýrslu sem skipaverkfræðingur hjá Siglingastofnun Íslands vann fyrir samgönguráðuneytið fyrir tveimur árum um hentugleika nýju Grímseyjarferjunnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að vanhirða og skortur á viðhaldi hafi blasað við hvert sem litið væri um borð í skipinu og að „verkvöndun við smíði skipsins gefi eðlilega tilefni til þess að ætla að annað ástand skipsins og búnaðar, sem ekki er mögulegt að kanna án frárifa og upptektar, geti verið talsvert lakara en aldur skipsins gefi tilefni til." Því sé ærin ástæða til að gera ráð fyrir hinu dapurlega ástandi skipsins við mat á kostnaði við endurbætur.

Skýrsluhöfundur segir í niðurlagi hennar að ef ástand skipsins hefði verið með þeim hætti að kaupin á því að viðbættum endurbóta- og viðgerðarkostnaði væri lægri en 240 milljónir króna væri líklega um áhugaverðan valkost að ræða samanborið við nýsmíði á nýju skipi.

Skýrslunni var skilað þann 25. september 2005. Skipið var, þrátt fyrir skýrsluna, keypt á 102 milljónir króna í nóvemberlok það sama ár. Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði í hádegisfréttum útvarps síðastliðinn miðvikudag að hann óttist að heildarkostnaður vegna ferjunnar yrði allt að 600 milljónir króna. Nýja Grímseyjarferjan er enn ekki komin í gagnið. <>Blaðið hefur skýrslu Siglingastofnunar undir höndum og í úttekt þess í blaði dagsins er farið ítarlega í efnisatriði hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert