Mikill erill hjá lögreglu í nótt - fangageymslur fullar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Kristinn

Mikill erill var hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt. Talsvert var um pústra í miðborginni, en þar var mannmargt í nótt og ölvun talsverð. Lögregla segir að níu hafi verið teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Þá voru fangageymslur fullar eftir nóttina.

Hópslagsmál brutust út rúmlega tvö í nótt á veitingastaðnum Kaffisetrinu í miðborginni. Að sögn lögreglu kveiktu dyraverðir staðarins öll ljós, slökktu á tónlistinni og höfðu samband við lögreglu þegar allt var farið í háaloft. Að sögn lögreglu náðu upphafsmenn átakanna að forða sér áður en lögreglan kom. Einn fékk áverka á andliti og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Enginn var handtekinn vegna málsins.

Á flótta á nærbuxunum einum fata

Um 1:30 í nótt barst lögreglu tilkynning um að nakin maður væri á hlaupum eftir Bíldshöfða. Þegar lögreglumenn fóru á vettvang kom í ljós að maðurinn, sem er útlendingur, var klæddur í nærbuxur einum fata. Maðurinn var blóðugur í andliti en þrír samlandar hans höfðu ráðist inn á hann þar sem hann var sofandi í íbúð við Tangarhöfða í Reykjavík. Lögregla segir að maðurinn hafi komist út við illan leik.

Þegar lögreglan kom á staðinn voru mennirnir búnir að rústa tveimur herbergjum í íbúðinni. Til átaka kom á milli mannanna og lögreglu þegar mennirnir vildu ekki yfirgefa staðinn. Tveir voru handteknir og verða þeir yfirheyrðir síðar í dag.

Sleginn í andlitið með glerflösku

Að sögn lögreglu var maður sleginn í andlitið með glerflösku á skemmtistaðnum Sólon um kl. 2:30 í nótt. Maðurinn var fluttur blóðugur á slysadeild, en hann framtennur losnuðu auk þess sem efri vör mannsins rifnaði. Árásarmaðurinn komst undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert