Kringlan fagnar tuttugu ára afmæli í dag. Á þessum degi fyrir tveimur áratugum klippti Pálmi Jónsson aðalhvatamaður að byggingu Kringlunnar á borða og lýsti verslunarmiðstöðina opna.
Fram kemur í tilkynningu að fjöldi heimsókna í Kringluna frá opnun telji nú ríflega 98 milljónir. Það lætur því nærri að hver einasti núlifandi Íslendingur hafi komið í Kringluna 327 sinnum frá opnun. Þessi gríðarlegi fjöldi sýnir hversu vinsæl Kringlan er og um leið hversu mikilvægur þáttur hún er í verslunar- og menningarlífi þjóðarinnar.
Þegar Kringlan opnaði fyrst voru 64 verslanir með starfsemi sínu í húsinu. Af þeim eru 27 enn í Kringlunni. Í dag eru hins vegar 124 verslanir í Kringlunni og ef allir rekstraraðilar eru taldir með eru 178 fyrirtæki með starfsemi í Kringlunni.
Í afmælisvikunni, sem standa mun frá 13. til 19. ágúst, verður viðskipatavinum Kringlunnar boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá sem hæfir allri fjölskyldunni.
Einn af hápunktum afmælisdagskrárinnar verður laugardaginn 18. ágúst í tengslum við Menningarnótt Reykjavíkur. Þá mun Ingibjörg St. Pálmadóttir, afhjúpa brjóstmynd af föður sínum Pálma Jónssyni. Brjóstmyndin er gjöf Ingibjargar til Kringlunnar á þessum tímamótum.
Allir þeir Íslendingar sem deila afmælisdegi með Kringlunni og eru fæddir 13. ágúst 1987 fá veglegar gjafir frá Kringlunni. Um er að ræða sex einstaklinga sem búsettir eru hér á landi og fær hver um sig gjafakort í Kringlunni að upphæð 20 þúsund krónur auk fjölda annara gjafa frá verslunum í Kringlunni.