Hraðakstur erlendra ferðamanna er áberandi í umdæmi lögreglunnar á Akureyri, sem segir að svo virðist sem breytingar á sektum og viðurlögum við hraðakstri hafi haft áhrif til hins betra á landann, en skilaboðin hafi ekki borist til ferðamannanna. Talsvert hafi dregið úr hraðakstri íslenskra ökumanna í grennd við bæinn.
Þannig greindi varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri frá því að í eftirlitsferð lögreglumanna vestur að Varmahlíð í Skagafirði hafi þrír ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur, og allt hafi það verið erlendir ferðamenn.
Allir voru þeir látnir greiða sekt á staðnum. Sá sem hraðast ók var á 134 í Öxnadal, en samkvæmt sektarreikni fyrir hraðakstur á vef umferðarstofu nemur sektin fyrir þetta brot 90.000 krónum.