Loftvarnir og aðgerðir gegn hryðjuverkum æfðar á Norðurvíkingnum

Frá fréttamannafundinum á Keflavíkurflugvelli í dag. Geir H. Haarde ásamt …
Frá fréttamannafundinum á Keflavíkurflugvelli í dag. Geir H. Haarde ásamt William T. Hobbins (fyrir miðju) og Tom Hall, fulltrúa Bandaríkjastjórnar. mbl.is/ÞÖK

Æfingin Norðurvíkingur hefst á morgun, en þar verða æfðar loftvarnir og aðgerðir gegn hryðjuverkum. Alls taka um 300 manns þátt í æfingunni, Danir, Norðmenn, Lettar, Bandaríkjamenn og Íslendingar. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á fréttamannafundi á Keflavíkurflugvelli í dag, að æfingin grundvallaðist á samkomulagi sem gert hefði verið við Bandaríkjamenn.

Geir greindi frá því hvað yrði æft, og sagði æfinguna verða tvískipta. Annars vegar yrði um að ræða loftvarnaræfingu sem fram færi að mestu yfir hafinu suðvestur af Reykjanesi. Þar yrði m.a. æfð leit að óvinaflugvélum og loftbardagar.

Í síðari hluta æfingarinnar tækju þátt sérsveitamenn frá Danmörku, Noregi, Lettlandi og Íslandi, en enginn Bandaríkjamaður, og verða þar æfðar aðgerðir gegn hryðjuverkum.

Íslendingar greiða kostnað vegna fæðis og húsnæðis fyrir þátttakendur í æfingunni, og nemur sá kostnaður alls um 45 milljónum króna. William T. Hobbins, yfirmaður bandaríska flughersins í Evrópu, sagði á fréttamannafundinum í dag, að þetta væri minnihluti kostnaðar við æfinguna, en að öðru leyti verði hann greiddur úr æfingasjóði bandaríska flughersins í Evrópu.

Það kom fram í máli Geirs að engin ákvörðun hefði verið tekin um breyttan rekstur ratstjárstöðvanna hér, og yrði rekstur þeirra áfram með sama sniði og verið hefur. Gagnrýnendur hafa bent á að ratsjárstöðin á Keflavíkurflugvelli sé óþarflega stór og dýr í rekstri, enda miðist umfang hennar við herstöðina sem var á vellinum.

Hobbins sagði að ratsjárstöðvarnar á Íslandi væru mikilvægar fyrir NATO, og kvaðst myndu verða íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar um hvernig gengið verði frá rekstri þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka