Skráð atvinnuleysi í júlí 2007 var 0,9% og lækkaði úr 1% í júní og 1,1% í maí. Er þetta minnsta atvinnuleysi í einstökum mánuði síðan í október árið 2000. Atvinnuleysi er um 28% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,4%.
Minnkandi atvinnuleysi skýrist einkum af því að atvinnulausum konum á landsbyggðinni hefur fækkað töluvert, en atvinnuleysi annarra stendur að mestu í stað.
Að jafnaði voru 1.578 manns á skrá og hefur því atvinnulausum fækkað sem svarar um nálægt 50 manns milli mánaða, samkvæmt frétt á vef Vinnumálastofnunar.
Atvinnulausum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 36 eða um 4% en á landsbyggðinni fækkaði um 17 eða 2,6% milli mánaða. Atvinnuleysi kvenna mældist 1,3% og karla 0,7%. Um 14% atvinnulausra í júlí var ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, en um 17% í júní sl. Fjöldi þeirra sem hafa verið á skrá í innan við 3 mánuði minnkaði úr 829 í júní í 823 í júlí. Þeim sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði fækkar hins vegar úr 621 í júní í 599 í júlí.
Aðeins voru gefin út 37 ný atvinnuleyfi í júlí til íbúa utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Nýskráningar ríkisborgara frá nýju ríkjum ESB voru 461, og þeir sem voru áður með leyfi voru 122 eða samtals 583.
Skýrsla Vinnumálastofnunar um atvinnuástandið