„Verulega sterk staða krónunnar undanfarna daga og misseri gefur að mínu mati verslunum og birgjum verulegt svigrúm til að mæta þessum matvælahækkunum á erlendum mörkuðum með því að taka þær á sig þannig að þær skili sér lítið eða óverulega til íslenskra neytenda," segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra um fyrirsjáanlegar hækkanir á matvöru hér á landi vegna mikilla hækkana á grænmeti, mjólkurvörum og hveiti erlendis.
Verðlagseftirlitsmál í skoðun
Hann nefnir jafnframt deilur sem staðið hafa um hvort matarskatts-lækkunin sem tók gildi í mars hafi skilað sér til neytenda en niðurstöður nýlegrar könnunar ASÍ sýna að svo sé ekki. „Nú er tækifæri fyrir smásölur og heildsölur að taka sannfærandi þátt í því að skila til neytenda bæði matarskattslækkuninni um sjö prósent frá því í vor og einnig mjög hagstæðri stöðu krónunnar fyrir þá," segir Björgvin. "Ég tel að þeir geti gert það með þeim hætti að þessar verðhækkanir skili sér ekki með sama hætti til neytenda og þær hefðu kannski gert ella en það kæmi mér á óvart ef hækkanirnar skiluðu sér af fullum krafti til neytenda."
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.