SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, hafa sent áskorun til umhverfisráðherra og bæjarstjórn Fjallabyggðar að beita sér fyrir friðlýsingu Héðinsfjarðar sem friðlands eða fólkvangs. Friðlandið yrði stofnað eigi síðar en jarðgöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða opnuð, en samtökin segja, að undirbúning friðlýsingar, merkingar gönguleiða og brúun lækja og mýrlendis þurfi að hefja sem allra fyrst.
Í tilkynningu frá SUNN segir, að Fjallabyggð og byggðarlög í nágrenninu hafi mikla hagsmuni af því að friðland verði stofnað á norðanverðum Tröllaskaga, með eins konar hjarta í Héðinsfirði. Því sé eðlilegt að sveitarfélagið beiti sér í málinu með umhverfisráðherra. Þá sé ekki ólíklegt að hinn siglfirski samgönguráðherra hafi áhuga á málinu.
Samtökin segja, að friðlýsing myndi hafa afar góð áhrif á ímynd svæðisins alls og vafalítið stuðla að auknum ferðamannastraumi um norðanverðan Tröllaskaga og auka þannig þau jákvæðu áhrif sem fólk á svæðinu vonast til að skapist vegna jarðganga og vegar sem liggur þvert yfir Héðinsfjörð.