Samgönguráðherra, Kristján Möller, hefur falið Vegagerðinni að mynda umsvifalaust sérstakan verkefnahóp sem hafi það markmið að fara yfir stöðu mála vegna nýrrar Grímseyjarferju og gæta hagsmuna ríkissjóðs. Þá hefur ráðherra óskað eftir því við Vegagerðina að nákvæmri verk- og kostnaðaráætlun verði skilað til ráðuneytisins fyrir vikulok.
Í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu kemur fram að þar sem ljóst má vera af lestri greinargerðar Ríkisendurskoðunar að ráðgjöf sérfræðings Vegagerðarinnar hafi brugðist og að litið hafi verið framhjá ráðgjöf Siglingastofnunar sem mælti með frekari skoðun áður en ráðist yrði í kaupin hefur samgönguráðherra jafnframt gefið Vegagerðinni þau fyrirmæli að stofnunin leiti sér nýrrar ráðgjafar á þessum lokaspretti málsins og nýti sér þekkingu Siglingastofnunar.
Samgönguráðherra hefur óskað eftir því að Ríkisendurskoðun framkvæmi þegar í stað stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni.
„Greinargerð Ríkiendurskoðunar er byggð á gögnum er vörðuðu kaupin og endurbæturnar frá Vegagerðinni, samgönguráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu og upplýsingum frá öðrum helstu málsaðilum, svo sem verksalanum, sem er Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf., Navís Feng ehf., sem hefur eftirlit með endurbótum á ferjunni, Ríkiskaupum, sem annaðist útboð vegna kaupanna og endurbótanna, Siglingastofnun og fleirum.
Markmiðið með athugun Ríkisendurskoðunar var að leita svara við eftirfarandi spurningum:
1. Hvernig var undirbúningi við kaup og endurbætur á ferjunni háttað og var hann fullnægjandi?
2. Hvers vegna hefur kostnaður við endurbætur á ferjunni verið miklu hærri en upphaflega var gert ráð fyrir?
3. Hvaða lærdóm er hægt að draga af málinu?
Helstu niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru þessar:
Ríkisendurskoðun telur ljóst að rekja megi mörg þeirra vandamála sem upp hafa komið í tengslum við endurnýjun Grímseyjarferju til ófullnægjandi undirbúnings áður en kaupin voru gerð. Nákvæm þarfagreining hafi ekki farið fram né heldur kostnaðar- og ábatagreiningar. Skoðun ferjunnar áður en hún var keypt var ábótavant. Gerð er athugasemd við losarabrag á kostnaðaráætlunum og skort á formfestu þegar ákvarðanir voru teknar um aukaverk vegna endurbóta á ferjunni. Fjölmargt í störfum verksalans er gagnrýnivert; ekki voru gerð tilboð í aukaverk, framvinda verksins hefur verið mun hægari en samið var um, verkáætlanir voru fáar og síðbúnar og ekki staðið við þær sem gerðar voru," samkvæmt tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.