Rannsókn gerð á vegrifflum

Vegir fræstir
Vegir fræstir

Rannsókn Vegagerðarinnar á vegrifflum hófst í dag með fræsingu á Grindavíkurvegi. Fræst verður á nokkrum stöðum á Grindavíkurvegi, Hringvegi um Kjalarnes, á Reykjanesbraut og á Hringveginum um Svínahraun. Alls verða 70 km fræstir í þessari rannsókn Vegagerðarinnar.

Rifflur í vegum eru umferðartæknileg aðgerð til að vekja athygli ökumanna á að þeir séu í þann veginn að keyra út af vegi eða yfir á akrein með umferð í gagnstæða átt, að því er segir í upplýsingum frá Vegagerðinni.

Verkfræðistofan Hnit kannaði fyrir Vegagerðina reynslu annarra þjóða af vegrifflum Í skýrslu þeirra voru mismunandi rifflur skoðaðar og lagt mat á hvaða áhrif rifflur hafa á umferðaröryggi og einnig athugað hvort rifflur geti komið í stað vegriða.

Svíar ætla í auknum mæli að fræsa miðlínur veganna en þeir hafa gert meira af því að fræsa kantana. Þá sýna rannsóknir í Bandaríkjunum og Kanada að slysum hefur fækkað um 20 til 60 prósent vegna fræsinga og áherslu á umferðaröryggi sem menn hafa farið í samfara því að fræsa rifflur.

Niðurstaðan var sú að þegar allt var tekið með í reikninginn þá voru þeir sem reynsluna höfðu sammála um að rifflur séu til bóta, ódýr kostur sem bjargi mannslífum. Rifflur eru þó ekki alveg án gagnrýni en það er fyrst og fremst hávaðamengun sem er gagnrýnd, að því er segir í tilkynningu.

„Rifflur eru miklu ódýrari kostur en vegrið þótt þær geti ekki komið alfarið í stað vegriða. Hver kílómetri af vegriði kostar 6-10 milljónir króna en vegrifflur kosta 4-7% af þeirri upphæð hver kílómetri.

Þá henta vegrifflur einnig við hlið vegriða til að koma í veg fyrir að keyrt verði á vegriðin og þannig komið í veg fyrir eignatjón.

Skýrsluhöfundar legga til að rifflur verði íhugaðar gaumgæfilega sem ódýr og áhrifamikill kostur til að fækka slysum og bjarga þannig mannslífum, koma í veg fyrir meiðsl og örorku og draga úr eignatjóni því, sem verður í umferðinni við óhöpp eða slys," samkvæmt tilkynningu.

Nánar um vegrifflur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka