Segir samgönguráðherra gera sig að blóraböggli í málinu

Eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur
guna@mbl.is

Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að hann hafi ekki komið að málefnum nýrrar Grímseyjarferju í meira en eitt ár og því komi það honum á óvart að samgönguráðherra, Kristján Möller, hafi ákveðið að gera hann að blóraböggli í málinu.

Fyrr í dag sendi Ríkisendurskoðun frá sér greinargerð þar sem fram kemur að rekja má mörg þeirra vandamála sem upp hafa komið við endurnýjun Grímseyjarferju til ófullnægjandi undirbúnings áður en kaup voru gerð. Nákvæmari greining á þörf, kostnaði og ábata og ítarlegri skoðun á þeirri ferju sem keypt var hefðu skipt verulegu máli þegar mögulegir kostir voru vegnir og metnir. Þá stenst sú aðferð að fjármagna kaup og endurbætur ferjunnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar engan veginn ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu.

Í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu kemur fram að þar sem ljóst má vera af lestri greinargerðar Ríkisendurskoðunar að ráðgjöf sérfræðings Vegagerðarinnar hafi brugðist og að litið hafi verið framhjá ráðgjöf Siglingastofnunar sem mælti með frekari skoðun áður en ráðist yrði í kaupin hefur samgönguráðherra jafnframt gefið Vegagerðinni þau fyrirmæli að stofnunin leiti sér nýrrar ráðgjafar á þessum lokaspretti málsins og nýti sér þekkingu Siglingastofnunar.

„Ég er ekki ráðgjafi á þessu stigi málsins hvað varðar Grímseyjarferjuna og hef ekki verið það í meira en ár. Ég hef ekki komið beint að málinu því frá því að þetta skip var keypt," segir Einar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Að sögn Einars skoðaði hann skipið, Oilean Arann, við annan mann haustið 2004 að beiðni Vegagerðarinnar og skilaði þá inn skýrslu til Vegagerðarinnar. „Þar kemur fram að við töldum að þetta skip gæti verið vænlegur kostur til Grímseyjarsiglinga á allt öðrum forsendum en verið er að tala um í dag. Við töldum að miðað við það að skipið yrði keypt á ákveðnu verði sem við vorum búnir að meta, sem er hálfvirði af því sem farið var fram á fyrir það. Þar var miðað við að farið yrði með skipið til viðgerðar, en það kom berlega í ljós í þessari skýrslu okkar að ásigkomulag skipsins var mjög slæmt.

Við töldum að með því að fara með skipið til viðgerðarstöðvar í Austur-Evrópu, þar sem allt önnur verð gilda en hér, væri hægt að gera skipið upp í óbreyttri mynd, það er án breytinga heldur einungis viðgerða, fyrir ákveðna upphæð.

Það sem síðan hefur gerst er að þegar skipið var keypt og komið var með það hingað og ákveðnar breytingar gerðar á því fyrir 100 milljónir króna að beiðni Grímseyinga, þá hef ég ekki komið að málinu. Því finnst mér það sérkennilegt að svo virðist sem samgönguráðherra sé búinn að gera mig að blóraböggli í öllu sem miður hefur farið án þess að ég geti borið hönd yfir höfuð mér," segir Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert