Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur og ráðgjafi stjórnvalda við kaup á nýrri Grímseyjarferju, áætlar í skýrslu sem hann skilaði í nóvember 2004 að endurbæturnar á skipinu sem keypt var myndu kosta um 55,4 milljónir króna. Heildarkostnaðurinn ætti að vera um 150 milljónir króna. Kostnaðurinn við endurbæturnar eru nú komnar í um 600 milljónir.
Skýrsla Einars er í algerri mótsögn við þá skýrslu sem Ólafur Briem, skipaverkfræðingur hjá Siglingastofnun Íslands, skilaði af sér ári síðar. Ólafur lýsti ástandi skipsins þannig að það hefði „í einu orði sagt verið hrörlegt sökum vanhirðu og skorts á viðhaldi".
Einar Hermannsson segir allt aðrar forsendur hafa verið fyrir kostnaði við endurbæturnar í sinni skýrslu en þeim ákvörðunum sem síðar voru teknar. „Við töldum að ef skipið yrði gert upp í óbreyttri mynd og ef það yrði gert í austurevrópskri stöð, þar sem verðlag er allt annað en það sem við þekkjum, væri hægt að gera það upp fyrir þessa upphæð. En nú er búið að gjörbylta skipinu. Það er búið að byggja yfir það, rífa úr því og setja á það perustefni og guð má vita hvað." Hann segir langsótt að nota skýrslu sína sem grundvöll fyrir þeim kaupum og breytingum sem síðar hafa orðið á Oilean Arann.
Niðurstaða úttektar Ríkisendurskoðunar kynnt í dag
Brynjólfur Árnason, sveitarstjóri í Grímsey, segir það hafa verið hrikalega sjón að sjá skipið í fyrsta sinn.
„Enda kom það í ljós þegar skipið fór á flot að það míglekur allt og búið að setja trétappa í það til að það sökkvi hreinlega ekki í Hafnarfirði."
Niðurstaða úttektar Ríkisendurskoðunar á framkvæmd kaupanna á skipinu verður kynnt í dag.
Nánar í Blaðinu í dag