90 ný störf með nýrri aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði

Eyþór Arnalds, Strokki, Páll Magnússon, Landsvirkjun, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, …
Eyþór Arnalds, Strokki, Páll Magnússon, Landsvirkjun, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, Magnús Ásgeirsson, atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Rosanne Rosenthal mbl.is/Benjamín Baldursson
Eftir Hjálmar Brynjólfsson
hsb@mbl.is

Verið er að undirrita raforkusamning milli ítalska fjölskyldufyrirtækisins Becromal og Landsvirkjunar á Akureyri fyrir nýja aflþynnuverksmiðju sem reisa á að Krossanesi á Akureyri. Verksmiðjan á að vera risin og hefja starfsemi á næsta ári. Skapar verksmiðjan níutíu ný störf í Eyjafirði. Orkuþörf verksmiðjunnar er 640 gígavattsstundir á ári sem er fimm sinnum meira heldur en Eyjafjarðarsvæðið notar árlega, að því er fram kom á fundi nú í hádeginu.

Aflþynnur eru notaðar í rafþétta en vaxandi eftirspurn er eftir rafþéttum þar sem þeir eru notaðir í allan rafeindabúnað. Íslenska fjárfestingafélagið Strokkur Energy hefur gerst þátttakandi í uppbyggingu Becromal á Íslandi.

Aflþynnur eru eins og áður sagði notaðar í rafþétta en álþynnur eru rafhúðaðar í sérhönnuðum vélasamstæðum, að því er fram kom á fundinum nú í hádeginu.

Umhverfisáhrifin frá verksmiðjunni verða lítil sem engin. Verksmiðjan mun ekki losa koltvísýring. Það sem hins vegar gerist er að verksmiðjan þarf mikið kalt vatn til að kæla vélarnar, samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundi á Akureyri. Samningar voru undirritaðir annars vegar á milli Becromal og Akureyrarbæjar um leigu á landi og kaup á húsum undir starfsemina og hins vegar við Landsvirkjun vegna orku til fyrirtækisins.

Rosanna Rosenthal, eiginkona Harrys Rosenthal stofnanda Becromal, sem undirritaði samninga fyrir hönd Becromal, segir að Akureyri og Ísland hafi fyrst og fremst orðið fyrir valinu hjá fyrirtækinu vegna þess að orkuverðið var hagstætt og menntunarstigið hátt hér á landi. Fyrirtækið fjárfestir fyrir 70 milljónir Bandaríkjadala í fyrsta hluta verkefnisins.

Samningurinn milli fyrirtækisins og Akureyrarbæjar felst í leigu á jörð og sölu á húsum undir starfsemina, að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur bæjarstjóra. Samningurinn er til 20 ára og Akureyrarbær ætlar að sjá til þess að starfsmenn fyrirtækisins fái menntun við hæfi í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Strokkur Energy, sem tekur þátt í að fjárfesta í verksmiðjunni, er íslenskt fjárfestingarfélag sem hefur fyrst og fremst fjárfest erlendis og aðallega í endurnýjanlegri orku. Eyþór Arnalds talsmaður þess undirritaði samningana fyrir hönd félagsins.

Frá undirritun samninga nú í hádeginu
Frá undirritun samninga nú í hádeginu mbl.is/Hjálmar
Frá Krossanesi á Akureyri
Frá Krossanesi á Akureyri mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert