Ekki um að ræða tímabundna launahækkun allra leikskólakennara

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, segir að tillaga um greiðslu tímabundinna viðbótarlauna til leikskólakennara vegna manneklu þýði ekki að allir leikskólakennarar fái tímabundna launahækkun. Lagt sé til, að þeir leikskólar sem ekki hafi fullnýtt fjárveitingar sínar noti þá peninga til að greiða kennurum tímabundin viðbótarlaun vegna þess aukaálags sem manneklan skapi í skólunum.

Ragnhildur segir að tímabundin viðbótarlaun, eða svonefndar tv-einingar, séu í kjarasamningum hugsuð sem umbunarkerfi og á næsta ári eigi að taka það upp og gert sé ráð fyrir að þá verði lagt fjármagn í það.

Aftur á móti þýði tillagan um að nú þegar verði farið að úthluta tv-einingum ekki að leikskólarnir fái aukið fjármagn til þess, heldur verði sem fyrr segir notað til þess fjármagn sem leikskólar kunni að hafa yfir að ráða. Það sé á valdi hvers leikskólastjóra fyrir sig hvernig tv-einingunum sé úthlutað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka