Iðnaðarráðherra mælir með nýyrðinu aflþynna

Össur Skarp­héðins­son, iðnaðarráðherra, bauð fyr­ir hönd rík­is­stjórn­ar Íslands ít­alska há­tæknifyr­ir­tækið Becrom­al vel­komið til Íslands.

„Sem iðnaðar- og orkuráðherra lýsi ég sér­stak­lega yfir ánægju með að verk­efnið skuli vera komið á þetta stig. Nú er ten­ing­un­um kastað og vænt­an­lega verður ekki aft­ur snúið," sagði Össur við und­ir­rit­un samn­ings milli Becrom­al og Lands­virkj­un­ar í há­deg­inu um raf­orku til nýrr­ar verk­smiðju á Ak­ur­eyri.

„Við fögn­um því hér í dag að Becrom­al og Lands­virkj­un hafa náð sam­komu­lagi um um­fangs­mik­il raf­orku­kaup til fram­leiðslu á raf­húðuðum álþynn­um sem notaðar verða í rafþéttaiðnaði. Um þessa hágæða afurð ligg­ur fyr­ir skemmti­leg til­laga þess efn­is að nota nýyrðið aflþynna í stað hins er­lenda orðs capacitor.

Við fögn­um því einnig að samn­ing­ar hafa náðst milli Becrom­al og Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar um lóð, aðstöðu og fjár­fest­ing­ar­kjör. Það er einnig ástæða til þess að ætla að samn­ing­ar ná­ist við Landsnet um að tryggja ör­yggi í orku­flutn­ing­um þegar kem­ur að stækk­un fyr­ir­hugaðrar aflþynnu­verk­smiðju," sagði Össur.

Sagði Össur að langt sé síðan Ak­ur­eyr­ar­bær leitaði með stuðningi Fjár­fest­ing­ar­stofu hóf­anna meðal er­lendra fyr­ir­tækja á þessu sviði orku­freks iðnaðar.

„Það hef­ur löng­um verið áhugi á að finna leiðir til þess að inn­leiða hér úr­vinnsluiðnað úr áli, sem gæfi okk­ur kost á að auka fjöl­breytni áliðnaðar og skapa tugi nýrra há­tækn­istarfa á því sviði. Fram­leiðsla aflþynna er slík­ur iðnaður, enda þótt ekki verði not­ast við ís­lenskt ál í fyrstu. Fyrsti hluti verk­smiðjunn­ar mun skapa um 40 50 ný störf sem síðar mun fjölga enn frek­ar með nýj­um áföng­um. Ekki er ólík­legt að út­flutn­ings­verðmæti fram­leiðslunn­ar verði sam­bæri­legt við það sem fisk­vinnslu­fyr­ir­tæk­in hér á Ak­ur­eyri áorka í dag.

Með reynsl­una af þess­um viðræðum í huga lá beint við að kynna aðstæður á Íslandi fyr­ir Becrom­al, stærsta fyr­ir­tæki á þessu sviði í Evr­ópu, sem er með starf­semi á Ítal­íu, í Nor­egi, í Sviss og Banda­ríkj­un­um. Nú, fjór­um árum síðar, eru samn­ing­ar í höfn og ástæða til að sam­fagna öll­um sem staðið hafa að þessu máli," sagði iðnaðar- og orku­málaráðherra.

Árið 1998 var fyrst rætt við fyr­ir­tæki frá Jap­an um aflþynnu­gerð, en Aust­ur Asía er helsta markaðssvæði í heimi fyr­ir þess­ar afurðir vegna mik­ill­ar fram­leiðslu á raf­einda­tækj­um. Þrjú stærstu fyr­ir­tæk­in í Jap­an sýndu mál­inu áhuga og komu full­trú­ar þeirra hingað til að kynna sér aðstæður en ekk­ert varð úr þegar á reyndi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert