Líklegt þykir að hreindýr sem skotið var fyrir skemmstu í Hamarsfirði hafi verið smitað af berklum. Lifur dýrsins var mun stærri en gengur og gerist hjá hreindýrum og var hún strax send til rannsóknar á tilraunastöðina að Keldum. Búist var við niðurstöðum í gær en að sögn Hjartar Magnasonar héraðsdýralæknis tókst ekki að finna sýklana í smásjá þannig að sýni verður sent í ræktun, sem tekur lengri tíma.
Hjörtur telur að um einangrað tilfelli hafi verið að ræða, en ekki faraldur, þar sem smitleið milli hreindýra er afar lítil. Í þessu tilfelli er líklegast að um sé að ræða fuglasmit og að úrgangur úr berklasmituðum fugli hafi verið á því svæði þar sem hreindýrið var á beit.
Hjörtur segir að þó aðeins sé um grun að ræða sé það nóg til að gera viðeigandi ráðstafanir. Tvímælalaust sé um sýkingu af einhverju tagi að ræða og eigi hann erfitt með að sjá að hún geti orsakast af öðrum sýklum en berklasýklum.