Yfirlýsing frá sveitarstjórn Grímseyjarhrepps

Sveitarstjórn Grímseyjarhrepps hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna skýrslu ríkisendurskoðunar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju:

Í 3 kafla 2. mgr. segir:

"Engar athugasemdir munu hafa borist frá Grímseyingum á þessu stigi máls."

Þessu vísar sveitarstjórn alfarið á bug, þrátt fyrir að ekki hafi borist formleg umsögn Grímseyinga, enda ekki eftir henni leitað, þá kom það skýrt fram í samtölum við þá sem í ferðinni voru og jafnframt við fulltrúa Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins, bæði í ferðinni sjálfri og líka í símtölum og tölvupóstsamskiptum eftir ferðina, að það var klár skoðun Grímseyinga að ekki kæmi til greina af þeirra hálfu að þetta skip yrði keypt.

Í 5 mgr. sama kafla segir:

"Sveitarstjórn Grímseyjar lýsti sig samþykka kaupunum með formlegum hætti."

Í tölvupósti hinn 26. september 2005 frá sveitarstjórn Grímseyjar til samgönguráðuneytisins segir orðrétt:

"Sveitarstjórn Grímseyjarhrepps hefur tekið til athugunar, og fjallað um gögn er varðar skoðun á M/V Oilean Arann. Miðað við þau gögn sem sveitarstjórn hefur nú undir höndum og hefur kynnt sér, ásamt því að hafa skoðað ástand skipsins, getur hún ekki mælt með að gengið verði frá kaupum á umræddu skipi að svo stöddu.

Í skýrslu Ólafs J. Briem, (dags. 25/09/05) er gerður fyrirvari um ástand þess hluta og búnaðar skipsins sem ekki hefur verið skoðaður og bent á að miðað við ástand skipsins megi búast við að ástandið sé lélegt. Telur sveitarstjórn Grímseyjarhrepps því varhugavert að áætla að kostnaður við að koma Oliean Arann í viðunandi horf, verði minna en nýsmíði ef miðað er við að afskrifa notað skip á 8 árum en nýtt á 16 árum."

Hinn 28. september 2005 barst svo tölvupóstur frá samgönguráðuneytinu varðandi fund sem haldinn var hjá Vegagerðinni daginn áður og þar segir:

"Í upphafi fundar var farið yfir athugasemdir ykkar eins og þær birtast feitletraðar í skýrslu ÓB. Fram kom í máli allra fundarmanna að athugasemdir ykkar væru sanngjarnar og myndi allt verða gert sem mögulegt væri til þess að verða við þeim. M.a. get ég staðfest að Vegagerðin hefur fullan hug á að halda samráði við ykkur og þá hugsanlega með formlegum hætti verði af þessum kaupum. Önnur atriði svo sem stækkun lestar, breytingar á farþegarými, athugun á perustefni koma allar til greina."

Síðar í sama tölvupósti segir:

"Sem sagt í venjulegum orðum þá viljum við ekki kaupa köttinn í sekknum og viljum einnig vita svona með einhverri nálgun hver viðbótarkostnaðurinn umfram kaupverð kynni að verða. Vil í því sambandi ítreka við ykkur að við höfum nokkuð svigrúm til að leggja út í kostnað við að gera skipið sem best úr garði.

Þá kemur að þriðju aðgerðinni og hún snýr beint að ykkur. Þið verðið að svara mér hvort framangreint sé ykkur að skapi og þið séuð viljugir til þess að samþykkja að skipið verði keypt á framangreindum forsendum. Auðvitað er málið þannig statt að þið verðið í sumu að treysta á orð okkar því sumt er hreinlega ekki þekkt."

Í tölvupósti hinn 29. september 2005 lýsti sveitarstjórn sig tilbúna að samþykkja kaupin á OA að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem fram hefðu komið í málinu.

Í skýrslunni er iðulega vitnað í síðbúnar kröfur Grímseyinga og vill sveitarstjórn í þessu sambandi benda á að þær kröfur sem sveitarstjórn hefur sett fram eftir að ákveðið var að kaupa skipið snúast aðalega um öryggisbúnað skipsins, aðbúnað farþega og innra skipulag.

Sveitarstjórn hefur undir höndum skoðunarskýrslu Siglingastofnunar sem var gerð eftir skoðun um borð í OA dagana 10. og 11. nóvember 2005. Þessa skýrslu sá sveitarstjórnin fyrst fyrir tveimur dögum, en í henni eru einmitt allar þær "kröfur" sem Grímseyingar hafa verið að reyna að fá í gegn, eftir að samningur var gerður, taldar upp og þar er talað um einmitt þessi atriði, sem þurfi að framkvæma til að skipið standist kröfur og fái samþykki Siglingastofnunar.

Í viðauka 1 við skýrsluna segir meðal annars um björgunarbáta skipsins:

"Bátarnir eru ekki viðurkenndir og skipta þarf þeim út fyrir viðurkennda gúmmíbjörgunarbáta."

Í skýrslunni er talað um að nauðsynleg burðargeta Grímseyjarferju hafi verið stórlega ofmetin og er vitnað í athugun Vegagerðarinnar þar að lútandi og talað um að flutningur hafi aldrei farið yfir 60 tonn í ferð. Þessu vísar sveitarstjórn á bug og nefnir í því sambandi að hún hefur undir höndum skjöl er sýna að árin 2005, 2006 og það sem af er árinu 2007 eru um 67 ferðir þar sem Sæfari flytur meira en 60 tonn og ef skoðuð eru viðmiðunarár Vegagerðarinnar þá má sjá að árið 2003 er mesti farmþungi Sæfara í einni ferð 147.192 kg.

Að lokum vill sveitarstjórn benda á það að í rannsókn málsins var aldrei haft samband við neinn í sveitarstjórn Grímseyjar né aðra Grímseyinga, hvorki til að fá álit, athugasemdir né leita eftir gögnum er málið varðaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert